Félagi kvikmyndagerðarmanna barst kvörtun vegna samninga sem aðildarfélag í SÍK hefur látið kvikmyndagerðarmenn í lausamennsku skrifa undir þar sem þeir eru látnir gefa eftir lögbundinn 11 tíma hvíldartíma. Þó svo að málið sé flókið vegna þeirrar staðreyndar að flestir sem starfa í kvikmyndagerð reka sig sem verktaka er staðreyndin samt sú að þetta stennst ekki lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Við höfum beðið lögfræðing félagsins Halldór Bachmann hdl og samstarfsmanns hans Ágúst Karl Karlsson hdl um að skoða lagalega hlið málsins og eftirfarandi er hluti af þeirri greinargerð sem þeir sendu á okkur um málið.

„Lög nr. 88/1971 um 40 stunda vinnuviku taka samkvæmt efni sínu einungis til launþega og ná því ekki til verktaka.

Lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum gilda hins vegar um alla starfsemi þar sem einn eða fleiri menn vinna, hvort sem um ræðir eigendur fyrirtækja eða starfsmenn þeirra, þó með ákveðnum undantekningum. Tilgangur laganna er m.a. að tryggja öruggt og heilsusamlegt umhverfi á vinnustað.

Í IX. kafla laganna er mælt sérstaklega fyrir um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma en ákvæðum hans var breytt með lögum nr. 68/2003 sem fólu m.a. í sér innleiðingu á efni vinnutímatilskipunar Evrópuráðsins, sem felur í sér tiltekin lágmarksréttindi til að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laganna skal haga vinnutíma þannig, að á hverjum 24 klukkustundum skuli starfsmenn fá a.m.k. 11 klukkustunda samfellda hvíld. Hins vegar er mælt fyrir um það í 52. gr. a. laganna að ákvæði kaflans, þ. á m. 1. mgr. 53. gr. laganna, gildir ekki um æðstu stjórnendur og þá sem ráða vinnutíma sínum sjálfir.

Af framangreindu tel ég leiða að ákvæði laganna um hvíldartíma eigi einungis við þegar um starfssamband launamanns og yfirboðara er að ræða og geti ekki átt við um verktaka, nema um annað sé sérstaklega samið.

Hins vegar er ljóst að lögin mæla fyrir um tilteknar meginreglur í vinnulöggjöf til verndar heilsu og öryggi starfsmanna sem hljóta almennt að eiga við hvort sem um launamenn eða verktaka er að ræða. Það mætti því mögulega vísa til þessara meginreglna við samningsgerð, enda ljóst að þrátt fyrir að kvikmyndagerðarmenn teljist til verktaka í þessu verkefni ráði þeir ekki framkvæmd vinnutíma sjálfir, heldur lúta boðvaldi annars aðila.“

Það er ljóst að sumir framleiðendur munu í krafti þess að þeir eru að semja við „verktaka“ halda áfram að seilast lengra og lengra í því að ganga á rétt fólks hvað varðar hvíldartíma, aðstöðu og hollustuhætti. Það er því deginum ljósara að mikilvægt er að ná heildarkjarasamning við SA – SÍK um kvikmyndagerð í landinu eins fljótt og mögulegt er. Það rímar vel við þá áætlun að FK gerist stéttarfélag kvikmyndagerðarmanna samkvæmt lögum og stefnt er á á næsta aðalfundi félagsins.

Við minnum á skjal sem að FK sendi frá sér á síðasta ári sem lýtur að því  að tryggja starfsfólki í kvikmyndagerð viðunnandi vinnuaðstæður og má nota til leiðbeiningar við gerð allra samninga. Til að skoða skjalið getur þú smellt HÉR