Uppljóstranir, grænlenskir rokkarar, heimskautarefurinn og Óskarsverðlaunahafar.

Óskarsverðlaunamyndin CitizenFour um uppljóstrarann Edward Snowden er ein heimildamynda Reykjavík Shorts & Docs hátíðarinnar í ár, en hátíðin verður 9.-12 apríl í Bíó Paradís. Leikstjóri myndarinnar, Laura Poitras, verður viðstödd sýningu myndarinnar og verður einnig með námskeið í heimildamyndagerð á hátíðinni. Sumé – The Sound of Revolution er fyrsta grænlenska heimildamyndin í fullri lengd en hún fjallar um grænlensku rokkhljómsveitina Sumé sem gerði garðinn frægan á 8. áratuginum á Grænlandi og víðar í Evrópu. Hljómsveitin átti sinn þátt í að efla og styrkja sjálfsvitund Grænlendinga á sínum tíma sem þá voru ekki enn komnir með heimastjórn frá Dönum. Myndin fjallar gerir hljómsveitinni góð skil, en varpar einnig ljósi á grænlenskt samfélag þá og nú.

Og að öðrum rokkurum, í annarri mynd, heimildamyndin Bannað að vera fáviti (No Idiots Allowed) er opnunarmynd Reykjavík Shorts & Docs í ár. Einu sinni á ári fyllist, hinn annars rólegi bær, Neskaupstaður af þungarokkurum sem mæta á Eistnaflug, einu hreinræktuðu þungarokkshátíð landsins. Þó að hátíðin, sem nú er haldin í tíunda sinn, sé lítil á alþjóðlega vísu hafa margar af stæstu þungarokkssveitum heims spilað fyrir gesti hátíðarinnar. Bannað að vera fáviti verður sýnd fimmtudaginn 9.apríl kl. 20 í Bíó Paradís. Leikstjóri myndarinnar, Hallur Örn Árnason, mun svara spurningum áhorfenda að lokinni sýningu myndarinnar.

Árleg minningarathöfn þjóðarmorðsins í Rúanda 1994, einnig þekkt sem Kwibuka-21, fer fram í vikunni í kringum 7. apríl. Að því tilefni verður heimildamyndin Sweet Dreams sýnd á Reykjavík Shorts & Docs hátíðinni en myndin fjallar um kjark kvenna í Rúanda og baráttuvilja þeirra til að gera samfélag sitt betra eftir fjöldamorðin í landinu árið 1994. Með fyrirgefninguna að leiðarljósi stofna þær trommarahóp eingöngu fyrir konur og síðar meir fyrstu ísbúðina í Rúanda. Útkoman er einstök og leikstjórar myndarinnar, Lisa og Rob Fruchtman varpa nýju ljósi á stöðuna í Rúanda og þá framtíð sem íbúar landsins eru að byggja sér. Lisa verður gestur Reykjavík Shorts & Docs hátíðarinnar og mun svara spurningum áhorfenda að loknum sýningum. Sýningarnar á Sweet Dreams er í samstarfi við Kigali Kaffi og á báðum sýningum verður boðið upp á Rúanda kaffi frá Kigali Kaffi fyrir sýninguna og ís frá Emmess ís á eftir. Lisa verður auk þess með masterclass í klippingu kvikmynda sunnudaginn 12. apríl frá 15:00-17:00. Fruchtmann vann til Óskarsverðlauna fyrir klippingu á myndinni The Right Stuff (1983) og var tilnefnd til sömu verðlauna fyrir klippingu á Apocalypse now (1979) og Godfather part III (1991), en auk þess hefur hún hlotið tilnefningar fyrir fjölda annarra verka.

Ár í lífi refsins er viðfangsefni myndarinnar Heimskautarefurinn í leikstjórn Guðbergs Davíssonar sem verður frumsýnd á hátíðinni. Myndin gefur áhorfandanum innsýn í erfiða lífsbaráttu heimskautarefs allt frá fæðingu og þar til hann verður fullorðinn og fer að eignast yrðlinga sjálfur. Þetta er einstök náttúrulífsmynd sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Heimskautarefurinn verður sýnd, auk annarra íslenskra stutt- og heimildamynda, föstudaginn 10.apríl kl. 20.

Fjöldi annarra stutt- og heimildamynda verða sýndar á Reykjavík Shorts & Docs hátíðinni. Upplýsingar um allar myndir hátíðarinnar og sýningartíma má finna á  www.shortsdocsfest.com Miðasala á myndir hátíðarinnar fer fram í Bíó Paradís.

Nánari upplýsingar um hátíðina gefur Heather Millard, stjórnandi Reykjavík Shorts & Docs hátíðarinnar, s: 693 5698