Örfáum dögum áður en heimildamyndahátíðin CPH:DOX átti að hefjast, lokaði Danmörk landamærum sínum og samkomubann var sett á vegna Covid-19, en hátíðin átti að fara fram í Kaupmannahöfn 18.-29. mars sl. Aðstandendur hátíðarinnar stóðu frammi fyrir því að hætta við hátíðinna eða hugsa í lausnum og úr varð að hátíðin færði sig á netið og varð síðar framlengd til 30. apríl.

Tine Fischer, stjórnandi hátíðarinnar, var nýverið í viðtali á heimasíðu Dönsku kvikmyndamiðstöðina og ræddi um reynsluna af þessum áskorunum og breytingum sem aðstandendur hátíðarinnar þurftu að bregðast við með afar skjótum hætti. Viðtalið má nálgast í heild sinni á heimasíðu Dönsku kvikmyndamiðstöðvarinnar en hér á eftir er lausleg þýðing og endursögn á því helsta í viðtalinu.

 

Hvernig heimildamyndahátíðin CPH:DOX komst í gegnum sína stærstu krísu:
,,Hátíðin er breytt til framtíðar”

Fyrir tveimur mánuðum síðan hefði það þótt óhugsandi að alþjóðleg kvikmyndahátíð gæti farið eingöngu fram á netinu. Hátíðin var ein af fyrstu stóru kvikmyndaviðburðunum í Danmörku sem varð fyrir barðinu á samkomubanni vegna Covid-19 faraldursins, en hátíðin laðar árlega að sér um 100.000 áhorfendur og um 2.000 manns sem starfa í þessum geira.

Tine Fishcer, stjórnandi hátíðarinnar, segir að strax tveimur dögum áður en samkomubann var sett á, fóru aðstandendur að skoða aðra möguleika til að halda hátíðina og kvöldið fyrir bannið þá tóku þau ákvörðun um að halda hátíðina, en á netinu. Þau fengu samstarfsaðila sína hjá vefstreymisfyrirtækinu Festival Scope í lið með sér og sömdu um sýningu á 40 myndum hjá þeim. Þegar samkomubannið skall á hófu þau vinnu við að hringja til framleiðenda og rétthafa til að sannfæra þá um að leyfa sýningu á myndum sínum á netinu. Það voru vissulega margar spurningar því fólk vildi vita hvaða áhrif það hefði á myndirnar að frumsýna á netinu í staðinn fyrir frumsýningu í kvikmyndahúsi og hvort heimildarmyndirnar myndu á endanum bara týnast í öllum fjölda myndanna. Aðstandendur hátíðarinnar lögðu áherslu á að tryggja að heimildamyndir myndu áfram halda frumsýningarstöðu sinni, að myndir í keppnisflokkum yrðu áfram dæmdar af alþjóðlegum dómurum og að dagskrá hátíðarinnar yrði áfram aðgengileg dönskum og alþjóðlegum kaupendum og dreifingaraðilum.

Tina segir að aðstandendur hátíðarinnar hafi fengið mikinn meðbyr með þessari ákvörðun um að halda hátíðina á netinu og tekið eftir miklum stuðningi fjölmiðlafólks sem jók umfjöllun sína um hátíðina. Þá hafi framleiðendur og rétthafar verið fljótir að fallast á að sýna myndirnar á netinu þátt fyrir að það gæti skapað vandamál síðar meir varðandi sýningarrétt til sjónvarpsstöðva. ,,Á þessum tímapunkti tókum við skýrt fram að við vorum ekki að tala um tímabundna streymisþjónustu fyrir danska notendur, heldur að lyfta allri hátíðinni á stafrænan vettvang sem naut stuðnings fagaðila í bransanum. Við gátum ekki lofað að þetta yrði árangursríkt, en það var markmið okkar,” segir Tine.

Nýr vettvangur og sterk samstaða

Það tók um 3-4 daga að gera tilbúið fyrir frumsýningu 40 kvikmynda á Festival Scope streymisþjónustunni, á frumsýningardegi hátíðarinnar 17. mars. Því næst voru ýmsir viðburðir tengdum sýningum myndanna færðir á netið, meðal annars viðburður með Edward Snowden. Fljótlega eftir að hátíðin fór í loftið var ljóst að það voru ýmiss vandamál með streymið því umferðin var svo mikil um síðuna. Þá þurfti að finna nýja samstarfsaðila og þá kom nýsjálenska frumkvöðlafyrirtækið Shift72 inn í samstarfið, en þau hönnuðu nýjan streymisvettvang á mettíma. Nýja streymisþjónustan gerði þeim mögulegt að setja allar 150 myndir CPH:DOX á netið.

Þá voru ýmsir viðburðir hátíðarinnar einnig gerðir aðgengilegir á netinu. CPH:CONFERENCE nýtti sér WebinarJam og sendu út beint frá Facebook og hópur sjónvarpsframleiðenda tók yfir skrifstofur CPH:DOX og settu upp stúdíó sendu umræður og viðtöl út beint. Fjármögnunarviðburðurinn CPH:FORUM fór fram í gegnum Zoom fundi, sem reyndist mjög góð lausn sem hentaði vel þátttakendum sem voru staðsettir í hinum ýmsu tímabeltum.

Samtal áhorfenda og hátíðarinnar

Þegar viðtalið var tekið við Tine höfðu selst rúmlega 65.000 stafrænir miðar á kvikmyndir hátíðarinnar og þá var rúm vika eftir af hátíðinni. Stafrænn miði kostar helmingi lægra en miði í kvikmyndahús en þrátt fyrir það hefur hátíðinni tekist að afla nægra tekna til að standa straum af mesta kostnaðinum og forða sér frá gjaldþroti. Gestafjöldi hátíðarinnar í ár er yfir 113.000 sem er nálægt metárinu í fyrra, þegar 119.000 gestir sóttu hátíðina. ,,Það hefur verið áhugavert að sjá hversu víða hátíðin dreifst og náð til breiðari áhorfendahóps,” segir Tine. ,,Áður fyrr voru um 90% gesta okkar frá höfuðborgarsvæðinu, en í ár er hlutfallið 70% en 30% er frá öðrum svæðum í landinu.’’ Tine nefnir einnig að fjarlægðin milli gesta og hátíðarinnar sé einnig breytt, og hún hafi orðið vör við þakklæti fólks yfir að geta sótt hátíðina með þessum hætti.

Möguleikar lýðræðisins

,,CPH:DOX er breytt til framtíðar. Það er enginn vafi á því að við komum til með að fyrirfinnast bæði með hefðbundnum hætti og á stafrænu formi á næsta ári. Þetta umbreytingarferli hefur sýnt að það er hægt að vera með hátíðina á stafrænu formi og það er mikils virði. Þess vegna mun hlutverk hátíðarinnar breytast,” segir Tine. Hátíðin skoðar nú möguleika þess að vera með streymisþjónustuna aðgengilega sem dreifingavettvangur árið um kring. Hún leggur áherslur á gott samstarf við kvikmyndahús og mikilvægi þess að viðhalda því, það stafræna leysi ekki kvikmyndahúsin af en geti verið góð viðbót fyrir það góða starf sem fer fram í kvikmyndahúsum.

,,Á sama tíma er einnig ljóst að það er hægt að færa rök fyrir að mikil hluti efnis okkar á erindi á stafrænt form, vegna þess að tilgangur þess er ekki listrænn heldur frekar til að vekja umræðu. Frá lýðræðislegu sjónarhorni séð, þá er stafrænn vettvangur fullur af tækifærum – hver sem er hefur aðgang að efninu, og það er skapar einnig vettvang til frekari rökræðu síðar meir,” segir Tine. Hún nefnir sem dæmi að 2.000 manns hafi horft á umræðurnar með Edward Snowden í beinni frá Moskvu, og síðan umræðurnar hafi átt sér stað, sé áhorfið komið upp í 75.000 og fólk vítt og breytt um heiminn hafi séð umræðurnar. Það sé augljóslega töluvert fleiri einstaklingar sem hafi því séð umræðurnar frá þeim upprunalegu 600 sem hefðu geta keypt sér miða í Bremen leikhúsinu í Kaupmannahöf þar sem umræðurnar áttu að fara fram. Hvernig nákvæmlega viðburðir sem þessir muni þróast í framtíðinni getur hún ekki sat um, en það sé skýrt að þau þurfi að leita nýrra leiða, því áhorfendur fái fljótt leið á að horfa á efni kvikmyndað s.s. umræður, tónleika eða leikhússýningu.

CPH:DOX hátíðin er nú orðin fyrirmynd annara hátíða og hefur ráðlagt öðrum alþjóðlegum kvikmyndahátíðum hvernig eigi að taka upp stafrænar sýningar s.s. Hot Docs hátíðinni í Kanada og  evrópsku kvikmyndasamtökunum European Film Promotion. Hún leggur þó áherslu á að það eigi ekki að taka upp stafrænan vettvang þar sem þjónustan er frí. ,,Við erum neydd til að venja fólk á að boga fyrir vöruna ef það á þróa þetta viðskiptamódel áfram. Og það eru vissulega fjöldi fólks þarna úti sem er vel kunnugt um alvarleika ástandsins og vill mjög gjarnan styðja við þá stofnanir sem þær nýta venjulega,” segir Tine Fischer stjórnandi CPH:DOX heimildakvikmyndahátíðarinnar í Kaupmannahöfn.