Skjaldborg – Hátíð íslenskra heimildamynda verður haldin á Patreksfirði daganna 31. júlí – 3. ágúst 2020. Til stóð að halda Skjaldborg um hvítasunnuhelgina líkt og fyrri ár en hátíðin var flutt vegna Covid-19 faraldursins. ,,Það á eftir að koma í ljós hvað flutningur Skjaldborgar ber með sér, en það var ekkert annað í stöðunni en að færa hátíðina og þá var verslunarmannahelgi freistandi möguleiki enda frídagur á mánudegi líkt og um hvítasunnuhelgina,’’ segir Karna Sigurðardóttir, heimildamyndahöfundur og ein aðstandenda hátíðarinnar. Hátíðin er fyrir löngu búin að festa sig í sessi meðal áhugafólks um heimildamyndir og hátíðin í ár er 14. Skjaldborgarhátíðin. Hátíðin hefur ávallt verið haldin um hvítasunnuna fyrir utan eitt skipti, árið 2013.  ,,Við höfum heyrt ánægjuraddir frá sumum sem vilja meina að þessi tímasetning passi betur við hátíðarferðalag heimildarmynda, útaf frumsýningarskilyrðinu sem er fyrir myndir á hátíðinni, en Skjaldborgarfólki þykir hátíðin tilheyra hvítasunnunni svo við sjáum hvernig það leggst í fólk að halda hátíðina í ágúst. Þetta árið var þó ekkert annað í stöðunni,’’ segir Karna.

Að venju munu frumsýningar á íslenskum heimildamyndum skipa stóran sess á hátíðinni, en veitt eru tvenn verðlaun;  Ljóskastarinn verðlaun dómnefndar og áhorfendaverðlaunin Einarinn. Þá verða verk í vinnslu og heiðursgestur hátíðarinnar einnig á sínum stað í dagskránni. Karna segir aðstandendur hátíðarinnar og samstarfsaðilar muni aðlaga sig að reglum sóttvarnarlæknis og almannavarna og bregðast við eins og þurfa þykir. ,,Samstarfsaðilar hátíðarinnar standa mjög þétt saman og við munum fylgja þeim reglum sem verða í gildi þegar hátíðin verður haldin og bregðast við ef aðstæður breytast.’’

Opið er fyrir umsóknir mynda og verka í vinnslu á Skjaldborg – Hátíð íslenskra heimildamynda fram til 9. júní í gegnum vef hátíðarinnar; skjaldborg.is