Kæru vinir,

það var spennandi áskorun að taka við formennsku FK á þessu ári og ég hef notað tímann til að setja mig inn hlutverkið sem þarf til að standa vaktina. Við fagfélögin tókumst á við boðaðan niðurskurð stjórnvalda til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands þar sem félögin stóðu þétt saman sem kom í veg fyrir mun meiri niðurskurð í þeim efnum. Evrópsku kvikmyndaverðlaunin fóru fram hér á landi í Hörpu sem var mikill heiður fyrir íslenska kvikmyndagerð og heppnuðust frábærlega vel til sóma fyrir land og lýð. Einnig má ekki gleyma kvikmyndaverðlaunahátíðinni okkar en Eddan fór fram í Háskólabíó í haust og heppnaðist virkilega vel og kom vel út í bíósalnum að flestra mati. Þetta ár hefur einkennst af því að við erum að skríða úr hýði eftir kóvidfaraldurinn og þetta var ár stóru erlendu kvikmyndamógúlanna og stendur True Detective sería HBO þar upp úr. Umræða um styrki til erlendra stórfyrirtækja í formi endurgreiðslna í samhengi við styrki til íslenskra kvikmyndagerðarmanna og þar með íslenskrar listrænnar vinnu kom af stað umræðu um að það þyrfti að aðskilja sviðin tvö rækilega í umræðunni því þetta sé sitthvor handleggurinn og gerólík svið og er sú umræða langt í frá búin.

Kæru FK-ingar það eru spennandi tímar framundan og margt í deiglunni þrátt fyrir verðbólgu og samdrátt og allt það, íslensk kvikmyndagerð stendur föstum fótum, það er þó okkar verkefni að halda vöku okkar og verja okkar hagsmuni þegar þess gerist þörf, þetta ár hefur sýnt okkur að við getum staðið saman þegar á reynir. Verum fagmannleg en samt meira mannleg, stöndum þétt saman og klöppum hvoru öðru á bakið, það er svo miklu skemmtilegra að styðja við kollega sína en að standa í grimmri eiginhagsmunagæslu. Við erum öll mikilvæg, við erum hvert og eitt með einstaka sýn, einstaka rödd sem mikilvægt er að heyrist.

Nú tekur dagana að lengja og sól hækkar á himinhvolfinu.

Ég og stjórn FK óskum ykkur gleðilegra jóla og farsæls komandi árs með þökkum fyrir allt hið liðna

Kær kveðja
Steingrímur Dúi Másson
formaður FK