Kæru félagar, nú höfum við sent út rukkun fyrir félagsaðild til félagsmanna FK. Það er verið að vinna í rafrænum félagsskírteinum og ég vona að þau verði tilbúin á fyrri hluta þessa árs. Ég minni á frábæran afslátt fyrir félaga í Bíó Paradís eða 25% fyrir bíómiða. Passar á Stockfish kvikmyndahátíðina í mars verða einnig á mjög góðu tilboði fyrir okkar félagsmenn.

Nýliðinn vetur var mjög áhugaverður, margar frumsýningar á íslenskum sjónvarpsþáttum og bíómyndum og Evrópsku kvikmyndaverðlaunin heiðruðu landann með nærveru sinni og héldu hátíðina í Hörpu, (sjá mynd með frétt). Nú nálgast Eddan einnig og við vonumst til að að allir FK félagar geti mætt á hana sem á því hafa áhuga og við munum upplýsa um það þegar nær dregur. Við verðum einnig í mjög spennandi samstarfi við Nordisk Panorama í haust og munum kynna það fljótlega. Eddan í núverandi mynd er sú síðasta sem haldin verður. Næsta ár verður Eddan tvær verðlaunahátíðir, annars vegar Sjónvarpseddan og hins vegar Kvikmyndaeddan (þó ekki með þessum nafngiftum), FK kemur að stefnumótun og þróunarvinnu Eddunnar enda eitt af kjölfestu-fagfélögunum sem standa á bak við hana. Það er mikilvægt að vandað verði til verka og munum við gæta hagsmuna okkar félags af vandvirkni í þeirri vinnu.

Nú lætur yfirmaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands af störfum eftir um tuttuga ár við stjórnvölinn og er það von allra að breytingin verði til gæfu fyrir allt íslenskt kvikmyndagerðarfólk þegar nýr stjórnandi tekur við. Við bjóðum nýráðinn yfirmann Gísla Snæ Erlingsson velkomin til starfa og óskum honum velfarnaðar á þeirri vegferð sem framundan er. Það er jákvætt að nú skuli yfirmaður miðstöðvarinnar vera ráðinn til fimm ára í senn að hámarki sem stjórnandi þessarar mikilvægu stofnunar svo ekki verði stöðnun og til að eðlileg endurnýjun geti átt sér stað.

Að lokum óska ég ykkur all hins besta nú þegar góa tekur við af þorranum og þá er stutt í vorið enda höfum við þá þreytt þorrann.

Kær kveðja
Steingrímur Dúi
formaður FK