Lög félagsins í núverandi mynd voru samþykkt á aðalfundi 7. apríl 2014 til þess fallin að félagið gæti gengið til liðs við Rafiðnaðarsamband Íslands og orðið fullgilt stéttarfélag. Þann 11. nóvember 2016 gekk það eftir. Með samþykki þessara laga falla þegar úr gildi eldri lög félagsins.

Lög félagsins
Lög félagsins

Félagið heitir Félag kvikmyndagerðarmanna (The Icelandic Film Makers Association). Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík. Starfssvið félagsins er allt landið.

Tilgangur félagsins og markmið er að stuðla að skapandi, listrænni og menningarlegri kvikmyndagerð og standa vörð um faglega og stéttarlega hagsmuni og höfundarrétt félagsmanna.

Félagið kemur fram fyrir hönd félagsmanna gagnvart stjórnvöldum, menningarstofnunum, öðrum félagasamtökum og erlendum aðilum.

Kvikmyndagerðamenn teljast allir þeir er vinna að kvikmyndagerð, meðal þess er eftirfarandi starfsheitalisti sem er þó ekki tæmandi: Aðstoðarleikstjórar, aðstoðarmenn PA, búniningahönnuðir, dagskrágerðarmenn, framleiðslustjórar, grafíkerar, grip, hljóðmenn, hljóðvinnslufólk, klipparar, kvikarar, kvikmyndastjórar, kvikmyndatökumenn, kvikmyndatökustjórar, leikmyndahönnuðir, leikstjórar, litgreinar, ljósamenn, pródúsentar, gervahönnuðir, skráarsafnarar, sviðsstjórar og aðrir þeir sem sinna störfum í kvikmyndagerð.

Innan félagsins eru starfrækt eftirfarandi faggildi, en stefnt er að einu faggildi fyrir hvert starfsheitamengi. Eftirfarandi er faggildalisti sem er þó ekki tæmandi:

 • Eftirvinnslugildi(Skrársöfnun, litgreining og mynblöndun
 • Framleiðslustjóragildi (pródúsentar, line producer, „framleiðendur“ og yfirmenn eftirvinnslu)
 • Hljóðgildi
 • Klipparagildi (Creative editor)
 • Kvikmyndastjóragildi (Stjórnandi upptöku, leikstjóri)
 • Kvikmyndatökustjórar (Directorof Photography)
 • Kvikmyndatökugildi(Kvikmyndatökumenn, ljósamenn, öryggisstjórar og grip)
 • Kvikaragildi (teiknimyndahönnuðir og grafíkerar)
 • Útlitsgildi (búningahönnun, leikmyndahönnun, gervahönnuðir, smink, hár)

Stjórn félagsins skipar til tveggja ára þriggja manna fagráð og einn mann til vara fyrir hvert gildi. Hvert faggildi setur sér faglegar kröfur og leitast við að starfa eftir alþjóðlegum stöðlum. Til þess að öðlast aðild að faggildunum skal sækja sérstaklega um það þegar sótt er um inngöngu í félagið og skal umsókn metin samkvæmt menntun, starfsreynslu og faglegu mati fagráðs.

Hlutverk gilda er að vera vettvangur fyrir sérhæfða fagumræðu og skoðanaskipti um hagsmuni einstakra faghópa, sem og kvikmyndagerðar í heild. Inntaka í gildi veitir meðlimum m.a. rétt til að nota nafn gildis í kreditlista.

Ráð þriggja félagsmanna sem jafnframt eru félagar í stéttarfélagi FK…..

Félagsmaður getur hver sá orðið sem hefur lokið a.m.k. tveggja ára námi hjá viðurkenndum kvikmynda- eða listaháskóla, eða hafa sinnt skapandi eða sérhæfðum faglegum störfum við kvikmyndagerð í minnst 12 mánuði og sýnt fram á það með nafni á kreditlista kvikmyndar. Ganga skal frá skriflegri eða rafrænni umsókn á þar til gert eyðublað. Enginn telst fullgildur félagsmaður í fagfélagsdeild fyrr en umsókn hans hefur verið samþykkt af meirihluta stjórnar félagsins, hann/hún hefur greitt árgjaldið eins og það er hverju sinni. Þá félagsmaður rétt á félagsskírteini (gefið út einu sinni á ári).

Full félagsleg réttindi félaga í fagfélagsdeild eru:

 • Kjörgengi og atkvæðisréttur á fundum félagsins.
 • Aðgangur að afsláttum og fríðindum til félagsmanna.
 • Réttur til að sækja um í menningarsjóð FK.
 • Réttur til að sækja um IHM greiðslur.
 • Aðgangur að námskeiðum á vegum félagsins.
 • Aðgangur að faggildi.

Ágreiningsmálum um félagsaðild er heimilt að vísa til stjórnar til endanlegrar afgreiðslu.

Fast árgjald skal ákveðið á aðalfundi félagsins fyrir næsta almanaksár og skal innheimta í mars ár hvert.

Félagsmaður sem ekki hefur greitt tilskilin gjöld til félagsins í allt að eitt ár telst ekki lengur félagsmaður og dettur út af félagaskrá en getur endurnýjað aðild með greiðslu gjaldfallinna félagsgjalda.

Tekjur félagsins af höfundarréttargreiðslum (t.d. IHM tekjur) skulu renna til rétthafa samkvæmt þeim reglum sem stjórn félagsins ákveður hverju sinni. Reglugerðir og starfsreglur eiga að vera aðgengilegar á vef félagsins.

Æðsta stjórn félagsins er í höndum aðalfundar. Aðalfund skal halda einu sinni á ári á tímabilinu 1. janúar til 1. mars og skal hann boðaður með minnst 10 daga og mest 20 daga fyrirvara, bréflega, rafrænt eða með auglýsingu í blöðum, útvarpi og/eða á heimasíðu félagsins. Í fundarboði skal tilgreina fundarefni í aðaldráttum.

Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.

Atkvæðisrétt á aðalfundi og félagsfundum hafa fullgildir félagsmenn sem eru skuldlausir við félagið. Allar kosningar eru bindandi og farifram skriflega ef fleiri en einn eru í kjöri. Falli atkvæði jafnt skal kosið að nýju og fáist þá eigiúrslit ræður hlutkesti. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum nema annað sé tekið fram í lögunum.

Á aðalfundi skulu eftirfarandi mál tekin til umræðu og atkvæðagreiðslu:

 1. Skýrsla stjórnar.
 2. Endurskoðaðir reikningar félagsins
 3. Lagabreytingar ef einhverjar eru
 4. Kosning stjórnar.
 5. Ákvörðun um fast félagsgjald næsta almanaksárs.
 6. Kosning endurskoðenda.
 7. Önnur mál.

Stjórn félagsins skipa sjö menn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, þrír meðstjórnendur, og tveir til vara. Formaður og varaformaður eru kosnir hver í sínu lagi.

Kjörtími stjórnarmanna er tvö ár í senn. Miðað skal við að annað hvert ár séu formaður og þrír fulltrúar kjörnir í stjórn og hitt árið séu varaformaður og fjórir fulltrúar kjörnir.

Skal leitast við að hafa fulltrúa sem flestra gilda í aðalstjórn félagsins þ.e. fulltrúa; kvikmyndatökustjóra, klippara, kvikara, framleiðslu, hljóðmanna og heimildamyndargerðarmanna.

Kosningar skulu vera skriflegar og leynilegar.

Stjórn félagsins fer með æðsta vald í öllum málefnum félagsins á milli aðalfunda og fylgir eftir lögum þess og samþykktum.

Að öðru leyti en kveðið er á í þessum lögum skal stjórn skipta með sér verkum og skal hún skipa menn í fagráð gilda og samninganefndir ásamt öðrum nefndum og ráðum er hún tekur þátt í. Auk þess skal stjórn fela einhverjum stjórnarmanna, eða öðrum félagsmanni, ritstjórn fréttabréfs og vef félagsins.

Stjórnarfundur telst löglegur ef minnst þrír fulltrúar sitja hann, þar af annað hvort formaður eða varaformaður.

Formaður félagsins hefur á hendi daglegt eftirlit með starfsemi félagsins og gætir þess að allir trúnaðarmenn félagsins geri skyldu sína. Honum bera að fylgjast með því eftir mætti, að allir félagsmenn haldi lög félagsins og aðrar samþykktir. Hann ber ábyrgð á geymslu og varðveislu allra skjala félagsins og annarra skilríkja.

Varaformaður skal gegna störfum formanns í forföllum hans.

Ritari félagsins heldur gerðabækur og ber á þeim ábyrgð.

Gjaldkeri ásamt stjórn félagsins ber sameiginlega ábyrgð á sjóðum félagsins og eignum. Gjaldkeri hefur einnig á hendi fjármál félagsins og bókhald í samráði við stjórn þess. Sjóði félagsins skal ávaxta á sem tryggastan og arðbærastan hátt. Gjaldkeri ætti alla jafna að sitja í úthlutunarnefnd höfundaréttagjalda IHM nema stjórn ákveði annað.

Almenna félagsfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Stjórn, boðar félagsfundi eftir því sem tilefni gefast til. Skylt er stjórn að boða félagsfund berist skrifleg krafa um það frá 25 félagsmönnum, þar sem fundarefni skal tilgreint.

Formaður félagsins setur félagsfundi og stýrir þeim, nema hann tilnefni fundarstjóra. Á aðalfundi skal jafnan tilnefndur fundarstjóri, sem skal samþykktur af fundinum. Fundarstjóri skipar fundarritara.

Félagsfundi skal boða bréflega eða með auglýsingu í fréttabréfi félagsins með minnst 10 daga og mest 20 daga fyrirvara. Í fundarboði skal tilgreina fundarefni í aðaldráttum.

Formaður skal boða stjórnarfundi svo oft sem þurfa þykir, en skylt er honum að boða fund ef þrír stjórnarmenn krefjast þess. Formaður stýrir fundum, en ritari skal halda gerðarbók yfir stjórnarfundi. Stjórn skal kjósa í ráð, nefndir og stjórnir sem félagið skipar menn í samkvæmt lögum, samningum og venjum. Þá er stjórn heimilt að skipa samninganefndir, er fari með umboð félagsins í einstökum málaflokkum. Falli atkvæði jafnt í stjórn skal atkvæði formanns ráða, en ella ræður meirihluti mættra stjórnarmanna afgreiðslu mála.

Ef félagi telst hafa brotið gagnvart tilgangi og hagsmunum félagsins er heimilt, eftir skriflega viðvörun til aðila, að víkja viðkomandi félagsmanni úr félaginu.

Hafi félagsmaður ekki greitt árgjald undangengins árs nýtur hann hvorki kosningaréttar né kjörgengis í félaginu. Greiði félagsmaður ekki félagsgjöld í tvö ár nýtur hann ekki lengur neinna réttinda í félaginu. Vilji slíkur aðili endurheimta réttindi sín í félaginu skal hann gera upp tvenn árgjöld. Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og miðast við 1. janúar ár hvert. Úrsögn skal hafa borist stjórn eigi síðar en 1. desember árið áður en úrsögn tekur gildi.

Félagsmaður, sem hefur greitt félagsgjöld a.m.k 3 af síðustu 5 árum áður en hann fer á eftirlaun og er ekki lengur í fullu starfi eða býr við örorku, skal vera undanþeginn greiðslu fastra félagsgjalda. Hann skal þó sem áður njóta sömu félagsréttinda og biðfélagar.

Heiðursfélagi Félags kvikmyndagerðarmanna er annars vegar sæmdarheiti, sem hlotnast mönnum fyrir mikilsvert framlag þeirra til eflingar félaginu og/eða kvikmyndagerðarmönnum og konum sem eiga að baki farsælan starfsferil sem kvikmyndagerðarmenn. Hins vegar skulu allir þeir félagsmenn sem ná 67 ára aldri og hafa verið félagsmenn í FK í a.m.k. 5 ár skuldlaust verða sjálfkrafa heiðursfélagar og skal stjórn lýsa því yfir á næsta aðalfundi eftir að þeim aldri er náð.

Stjórn FK kýs félaginu heiðursfélaga, sbr. lögum félagsins. Til kjörs á heiðursfélaga þarf samhljóða atkvæði stjórnarmanna. Kjör heiðursfélaga skal staðfest á félags- eða aðalfundi FK.

Kjöri heiðursfélaga skal lýst á aðalfundi eða við annað sérstakt tilefni.

Á heiðursskjali, sem útbúa skal í tilefni af kjöri á heiðursfélaga, skal rita nafn og starfsheiti þess, sem sæmdina hlýtur. Jafnframt skal rita þar hverjir sérstakir verðleikar eru tilefni kjörsins.

Heiðursskjalið skal undirritað af stjórn Félags kvikmyndagerðarmanna.

Skrá skal á lén félagsins www.filmmakers.is nafn heiðursfélaga og dagsetningu kjörsins. Ennfremur skal þar skrá tilefni sæmdarinnar sömu orðum og skráð eru á heiðursskjalið.

Heiðursfélagi skal njóta allra réttinda sem félagsmaður Félags kvikmyndagerðarmanna og er undanþeginn greiðslu árgjalds til fagdeildar félagsins.

Heiðursfélagi sem og aðrir félagar í Félags kvikmyndagerðarmanna sem hafa verið samfleytt í félaginu í meira en 5 ár eiga rétt á því við andlát ef að aðstandendur vilja, að fáni félagsins standi við útförina.

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og berast skrifstofu félagsins. Þó getur enginn sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun eða heimild til vinnustöðvunar hefur verið auglýst eða ákveðin af trúnaðamannaráði og þar til vinnustöðvun hefur verið aflétt.

Verði ágreiningur milli félagsmanna, félagsins og einstakra félagsmanna má leggja hann undir úrskurð gerðardóms. Þá má hvorki félagið né einstakir félagsmenn leita til dómstóla út af slíkum málum meðan málið er til meðferðar hjá gerðadómi. Gerðardóm skipa 3 menn. Skulu aðilar skipa sinn manninn hvor, en RSÍ tilnefnir þann þriðja. Gerðardómur skal útkljá hvert mál innan eins mánaðar frá því hann er fullskipaður. Úrskurður gerðardóms er endanlegur og bindandi fyrir báða aðila. Dómurinn ákveður hver greiða skuli kostnað þann, er af gerðinni leiðir. Félagsmönnum er skylt að hlýða lögum félagsins og samþykktum í einu og öllu.

Erindrekstur formanns eða einhvers annars félagsmanns, sem hefur í för með sér kostnað fyrir félagið, skal háður samþykki stjórnar.

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Fyrir hvern aðalfund skulu reikningar félagsins endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og félagskjörnum skoðunarmönnum. Gjaldkeri skal hafa lokið við að ganga frá reikningum félagsins fyrir lok janúarmánaðar ár hvert og afhenda þá löggiltum endurskoðanda. Endurskoðendur skulu skila stjórninni endurskoðuðum reikningum eigi síðar en viku fyrir boðaðan aðalfund ár hvert.

Lögum félagsins má ekki breyta nema á aðalfundi og verða tillögur til lagabreytinga að hafa borist stjórn félagsins viku áður en aðalfundur er boðaður. Lagabreytinga skal geta og kynna í fundarboði.

Lagabreytingar þurfa samþykki 2/3 greiddra atkvæða. Lögin taka ekki gildi fyrr en að fenginni staðfestingu ASÍ og viðeigandi landssambands ef við á.

Félaginu verður ekki slitið nema ¾ hlutar allra fullgildra félagsmanna samþykki það að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu.

Verði samþykkt að leggja félagið niður skal RSÍ varðveita þær eignir félagsins sem ekki hafa löggildan vörsluaðila.

Verði annað félag stofnað er starfar á sama grundvelli og nýtur sömu viðurkenninga og FK nú, skal vörsluaðilum þá skylt að afhenda umræddu félagi eignir þess til fullrar eignar.

Um sameiningu félaga skal fjalla um á sama hátt og lagabreytingar.